Maríanna Pálsdóttir snyrti-og förðunarfræðingur er nýr pistlahöfundur á DV.
Hún kemur til dyranna eins og hún er klædd. Lesendur eiga því von á hreinskilnum pistlum um snyrtivörubransann og öðru því tengdu.
Maríanna er eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur en hún hlaut sérstök verðlaun úr hendi forseta Íslands fyrir framúrskarandi árangur í námi þegar hún útskrifaðist með sveinspróf í snyrtifræði. Maríanna er í meistaranámi sem hún hyggst ljúka vorið 2024.
Einfalt er best og segðu bless við allar skyndilausnir!
Sú snyrtivara sem felur í sér raunverulega töfralausn í einum grænum er ekki til. Krem og aðrar snyrtivörur eru góð leið til að viðhalda húðinni hverju sinni en öldrun hennar er óumflýjanlegt lögmál sem við öll þurfum að sætta okkur við, hvernig sem við svo gerum það. Það sem skiptir mestu máli er að við séum meðvituð um umhirðu húðarinnar á heildrænan hátt, að við hugsum vel um hana alla daga, allan ársins hring. Töfrandi skyndilausnir í formi snyrtivara færa okkur ekkert, nema þá helst hrein vonbrigði.
Heilsurækt, hugleiðsla og almenn skynsemi eru þættir sem við höfum heyrt talað um síendurtekið, enda ekki að ástæðulausu. Það virkar að hreyfa kroppinn, róa hugann, forðast streitu og almenn leiðindi. Þetta eru ekki geimvísindi heldur margsannaðar staðreyndir um mikilvægi þess að vera meðvitaður um hugann, líkamann og sálina. Reykingar, óhófleg áfengisneysla og almennt fúllyndi er ávísun á illa útlítandi húð og ætti það ekki að koma neinum á óvart!
Snyrtivörubransinn er einn stærsti vörumarkaður heims.
Á dögunum var ég stödd í Dubai og fór í Dubai Mall en það var ákveðin upplifun að labba inn í slíkan lúxus-heim. Það var þó alls ekki brjálað að gera í Gucci eða Louis Vuitton búðunum en það var hins vegar vart þverfótað fyrir fólki inni í Sephora, vinsælustu snyrtivöruverslun heims. Þar flæddi fólk inn og út í leit að kremum, sápum, förðunarvörum og öðru tilheyrandi. Þetta sagði mér í raun bara eitt; fólk almennt þráir að líta sem best út og vílar ekki fyrir sér að festa kaup á snyrtivörum fyrir tugi þúsunda.
Því segi ég hátt og skýrt: GÆTTU ÞESS AÐ LÁTA EKKI SELJA ÞÉR HVAÐ SEM ER. Vertu með þína húðtegund á hreinu og passaðu að velja húðvörur í takt við það.
Einfalt er oftast best
Þá spyrja sig kannski einhverjir: „Hvernig get ég vitað hvaða húðtegund ég er með?” Jú þú pantar þér tíma í húðgreiningu hjá fagaðila, á snyrtistofu, og kaupir vörurnar þar samkvæmt ráðleggingum.
Snyrtivörur geta verið rándýrar og þá er eins gott að velja rétt og vel svo allar þessar krukkur safnist ekki upp í skápnum heima hjá þér, lítið eða ekkert notaðar. Það vill enginn eyða tugum þúsunda í krem sem passar svo ekki fyrir húðina þína, sem þig jafnvel svíður undan eða sem veldur öðrum óþægindum?
Að velja sér réttu snyrtivöruna er nákvæmnisverk og mikilvægt að vanda vel valið.
Einfalt er oftast best og það er ekkert sem segir að þrjú krem, þrjú serum, tvö augnkrem og sýrur séu gott á andlitið þitt allt í bland þó svo þú sjáir það á TikTok eða Instagram.
Maríanna segir skyndilausnum til syndanna – „Gættu þess að láta ekki selja þér hvað sem er“